16. nóvember 2022
Skóflustunga tekin að 24 íbúða húsi við Asparskóga 3
Fyrsta skóflustunga við Asparskóga 3 á Akranesi var tekin í gær, 15. nóvember þar sem byggðar verða 24 íbúðir í þremur sjálfstæðum húsum á tveimur hæðum. Húsin mynda eins konar hring, með garði í miðju, opinn til suðvesturs. Íbúðirnar verða tveggja til fimm herbergja, allar með sérinngangi frá svalagangi. Húsið verður byggt með svokallaðri box aðferð, með þeim hætti að einingar eru smíðaðar í verksmiðju og nánast fullunnar þar að innan. Íbúðirnar raðast svo saman á byggingastað og eru að lokum klædd að utan á staðnum.
Fyrstu íbúðir verða afhentar á fjórða ársfjórðungi 2023 og þær síðustu á öðrum ársfjórðungi 2024. Opnað verður fyrir umsóknir í byrjun árs 2023.
Verktaki er Eðalbyggingar og SG hús á Selfossi og arkitekt er Svava Jóns arkitektur og ráðgjöf.
Bjarg hefur þegar byggt og er með í útleigu 33 íbúðir á Akranesi.
Tölvugerð mynd af sams konar húsi og byggt verður.