17. mars 2025
Tólf flutningabílar fóru frá Selfossi til Húsavíkur með sex íbúða raðhús Bjargs

Fimmtudaginn, 13. mars, hófu tólf flutningarbílar ferð sína frá Selfossi til Húsavíkur með sex íbúða raðhús Bjargs, um sólahring seinna var húsið risið á Húsavík. Hvert hús samanstendur af tveimur einingum.
Nýju húsin eru að Lyngholti 42-52 á Húsavík. Ferðalagið tók um 16 klukkutíma og var bílalestin komin á leiðarenda um hádegi, föstudaginn 14. mars. Aka þurfti um 800 km leið þar sem ekki var hægt að fara í gegnum nein jarðgöng eða minni og þrengri brýr. Þegar á leiðarenda var komið var strax hafist handa við að hífa húsin á grunninn sem beið tilbúinn á Húsavík. Fyrsta einingin var komin niður á grunn um klukkan 12.00 og sú síðasta klukkan 19.30 á föstudagskvöldinu. Áætlað er að húsin verði að fullu tilbúin og íbúðir allar afhentar nýjum leigutökum í apríl.
Um er að ræða nýsköpunarverkefni þar sem íbúðirnar voru smíðaðar á Selfossi og fluttar nánast fullbúnar norður. Á sama tíma og húsin voru í smíðum á Selfossi sáu heimamenn á Húsavík um jarðvinnu og sökkla fyrir húsið. Þannig var hægt að vinna að tveimur verkþáttum á sama tíma sem styttir byggingartíma töluvert.
Íbúðunum hefur öllum verið úthlutað. Frekari upplýsingar um íbúðirnar má finna hér.
Sjá umfjöllun á Vísi hér.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af ferðalaginu:







