15. mars 2018
Viljayfirlýsing undirrituð um byggingu 33 íbúða á Akranesi
Með viljayfirlýsingunni veitir Akraneskaupstaður Bjargi íbúðafélagi vilyrði um úthlutun á lóðum að Asparskógum 12, 14 og 16.
„Með undirritun yfirlýsingarinnar er stór skref stigið í að mæta íbúum Akraness með fjölgun leiguíbúða en lítið framboð hefur verið af slíkum síðastliðin ár. Ég er fullur tilhlökkunar yfir verkefninu og hef mikla trú á því. Við erum hér að mæta fjölskyldum hér í bæ með nýjum leiguíbúðum á leiguverði sem tekur mið af tekjum heimilisins”, segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.
Björn Traustason framkvæmdastjóri Bjargs lýsti yfir ánægju sinni með undirritunina og er spenntur fyrir að hefja þetta metnaðarfulla verkefni á Akranesi. Björn lýsir yfir mikilli ánægju með samstarfið við fulltrúa Akraness og hversu hratt og örugglega ferlið hefur gengið fyrir sig.
Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi og varaformaður skipulags- og umhverfisráðs fagnaði þessum áfanga enda væri leigumarkaðurinn á Akranesi erfiður sem stendur. Þarna skapaðist tryggt leiguhúsnæði fyrir einstaklinga, ungar fjölskyldur, námsmenn o.fl. og spennandi yrði að fylgjast með uppbyggingunni.