6. maí 2022
Viljayfirlýsing undirrituð við Reykjavíkurborg um frekari uppbyggingu í Borginni
Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð um uppbyggingu Bjargs á allt að 505 nýjum íbúðum í Reykjavík.
Sjá hér frétt á vef Reykjavíkurborgar en þar segir m.a.:
"Bjarg, íbúðafélag verkalýðshreyfingarinnar hefur byggt upp leiguíbúðir fyrir félagsfólk af miklum krafti á undanförnum árum. Á næstu tveimur árum verður lokið við að uppfylla viljayfirlýsingu við félagið frá 12. mars 2016 um 1.000 íbúðir í Reykjavík. Bjarg hyggst byggja um 100 íbúðir í Reykjavík á ári eftir það til að mæta þörf sinna félaga. Reykjavíkurborg hefur þegar veitt Bjargi lóðarvilyrði fyrir um 210 íbúðir á fjórum lóðum sem fara í byggingu á næstu misserum. Borgarráð samþykkti einnig tillögu um vilyrði fyrir allt að 190 íbúðir á fjórum lóðum sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar á árunum 2022-2024. Því til viðbótar var samþykkt viljayfirlýsing fyrir allt að 505 íbúðir sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar á árunum 2024-2028. Bjarg getur á næstu árum byggt allt að 905 íbúðir á 17 reitum sem eru staðsettir víða um borgina."
Um er að ræða eftirfarandi lóðir/svæði:
- Veðurstofuhæð: Áætluð úthlutun árið 2024 fyrir allt að 50 íbúðir.
- Korpureitur: Áætluð úthlutun árið 2025 fyrir allt að 50 íbúðir.
- Vogur: Áætluð úthlutun árið 2025 fyrir allt að 73 íbúðir.
- U reitur: Áætluð úthlutun árið 2025 fyrir allt að 50 íbúðir.
- Safamýri: Áætluð úthlutun árið 2025 fyrir allt að 50 íbúðir.
- Miklubrautarstokkur: Áætluð úthlutun árið 2026 fyrir allt að 70 íbúðir.
- Skerjafjörður II: Áætluð úthlutun árið 2027 fyrir allt að 72 íbúðir.
- Sæbrautarstokkur: Áætluð úthlutun árið 2028 fyrir allt að 40 íbúðir.
- Óstaðsett: Áætluð úthlutun árið 2028 fyrir allt að 50 íbúðir.
Samhliða veitir Reykjavíkurborg vilyrði fyrir allt að 190 íbúðum á fjórum lóðum, Haukahlíð, Rangársel og tveimur lóðum í Gufunesi II. Áætluð úthlutun þeirra er á árunum 2022-2024.