Reglur um gæludýrahald hjá Bjargi íbúðafélagi
Hunda og kattahald er bannað í húsum/íbúðum Bjargs Íbúðafélags (Bjargs) nema ákveðnum skilgreindum íbúðum sem sótt er um og úthlutað sérstaklega. Annað dýrahald er bannað valdi það öðrum íbúum óþægindum og ónæði.
Um íbúðir sem heimila gæludýrahald gilda eftirfarandi reglur
1. Óheimilt er að vera með meira en eitt gæludýr í hverri gæludýraíbúð.
2. Leigutaki skal hafa gilda skráningu/leyfi á skráningarskyldum gæludýrum frá bæjarfélagi.
3. Gæludýr skulu þannig haldin að þau valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði, né raski ró manna. Ef dýrið veldur nágranna ónæði, óþrifum eða tjóni, ber leigutaka tafarlaust að koma í veg fyrir slíkt. Ef ekki er hægt að koma í veg fyrir ofangreint er óheimilt að vera með dýrið í íbúð Bjargs.
4. Leigutakar skuldbinda sig til að fara eftir reglum viðkomandi sveitarfélags um dýrahald og reglugerðum viðeigandi ráðuneytis um bæði hollustuhætti og velferð gæludýra.
5. Bjargi er heimilt að koma í hið leigða til að sjá að reglum þessum sé framfylgt.
6. Bjargi er heimilt að rifta leigusamningi vegna brota á reglum um gæludýrahald.
7. Kaupa þarf ábyrgðartryggingu fyrir hunda sem nær til alls þess tjóns, sem hundurinn kann að valda mönnum, dýrum, gróðri og munum.
8. Óheimilt er að halda hunda af eftirtöldum tegundum:
a. Pit Bull Terrier, Fila Brasileiro, Toso Inu, Dogo Argentino, Amerískur bulldog, Amerískur staffordshire (amstaff), Boer boel, Miðasískur ovtjarka, Anatolískur fjárhundur (kangal), Kákasískur ovtjarka, Sarplaninac, Suðurrússneskur ovtjarka, Tornjak, Schäfer, Dobermann, Rottweiler, Boxer, Husky, Alaska Malamute.
b. Blendinga af ofangreindum tegundum
c. Blendinga af úlfum og hundum
d. Stórir hundar sem vakið gætu hræðslu
e. Aðrar tegundir sem hættulegar eða óæskilegar eru að fenginni reynslu eða mati sérfróðra aðila, s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara.
9. Hundaeigendum er ávallt skylt að fjarlægja skít eftir hundinn.
10. Óheimilt er að láta gæludýr vera laust í sameign og ef fara þarf með gæludýrið í gegnum sameign skal haldið á því í fangi eða í búri. Öll óþrif sem kunna að verða við þann flutning skal samstundis hreinsa upp.
11. Óheimilt er að láta hunda vera lausa. Lausaganga og ráf er litið alvarlegum augum. Hundar skulu því ávallt vera í taumi utan húss og í umsjá manns, sem hefur fullt vald yfir þeim. Heimilt er þó að hafa hunda lausa undir eftirliti ábyrgs aðila innan hundheldrar girðingar þar sem hún er til staðar.
12. Bjargi er heimilt að setja nýjar reglur um gæludýrahald komi seinna í ljós að þörf sé slíku.