Spurt og svarað
Hvaða skilyrði þarf ég að uppfylla til að geta fengið úthlutun?
Þú þarft að vera orðinn 18 ára, skráður og virkur á biðlista hjá Bjargi og með skráða umsókn. Þú þarft að hafa verið virkur á vinnumarkaði og félagsmaður aðildarfélaga innan ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuð, sl. 24 mánuði miðað við úthlutun. Þú þarft að vera undir ákveðnum tekju- og eignamörkum við upphaf leigu og greiðslubyrði leigu skal að jafnaði ekki fara umfram 25%-30% af heildartekjum að teknu tilliti til húsnæðisbóta, barnabóta og meðlags.
Ég er ekki viss í hvaða stéttarfélagi ég er eða hvort ég hafi verið þar nógu lengi til að geta fengið úthlutun, hvernig athuga ég þetta?
Þú átt að sjá á launaseðli í hvaða stéttarfélagi þú ert. Bæði vinnuveitandinn þinn og stéttarfélagið getur sagt til um hversu lengi þú hefur verið félagsmaður.
Hvað þarf ég að gera til að skrá mig á biðlista?
Þú skráir þig á biðlista í gegnum “mínar síður”, þú staðfestir að þú uppfyllir skilyrði fyrir úthlutun og greiðir félagsgjald. Þú berð sjálfur ábyrgð á því að vita að þú uppfyllir öll skilyrði fyrir úthlutun og það þarf því að skoða vel. Bjarg skoðar ekki fyrr en við úthlutun hvort viðkomandi upplýsingar séu réttar. Vertu því viss um stéttarfélagsaðildina og að þú standist tekju- og eignamörkin ásamt því að lesa úthlutunarreglurnar vel áður en þú greiðir félagsgjaldið og skráir þig á biðlistann. Skráningu á biðlista þarf að endurnýja á 12 mánaða fresti og greiða árlegt félagsgjald. Félagsgjald fæst ekki endurgreitt.
Kærastinn minn á tvö börn úr fyrra sambandi sem við þurfum að geta tekið á móti af og til, á ég að skrá þau með í umsókninni?
Til að hægt sé að taka tillit til barna kærasta þíns í umsókninni þurfið þið að vera skráð í sambúð og auk þess þarf hann að vera með sameiginlegt forræði yfir börnunum. Skila þarf inn staðfestingu á sameiginlegu forræði á skrifstofu Bjargs (fengið hjá Sýslumanni) þegar úthlutun til þín kemur til greina og Bjarg fer í að staðfesta allar upplýsingar. Ef þið kærastinn eruð ekki í sambúð, en hann er með sameiginlegt forræði, er ekki hægt að skrá börnin með í umsóknina enda ekki hægt að para ykkur saman.
Mamma er orðin mjög fullorðin og við vildum gjarnan hafa hana með okkur í heimili, getum við gert ráð fyrir henni í umsókninni og getur hún fengið sér herbergi?
Já, það getur gengið en staðfesta þarf tenginguna með greinilegum hætti. Þú skráir hana þá sem ”annar fjölskyldumeðlimur” í umsókninni þinni og í skýringu þarf að koma fram hver tengingin er, t.d. mamma leigutaka. Þá þarf að skila inn staðfestingu á tengingunni sem í þessu tilfelli væri fæðingarvottorð leigutaka þar sem hægt er að sjá hver móðir leigutaka er.
Dóttir mín er orðin 22 ára og býr enn hjá okkur, hvar skrái ég hana inn?
Þú myndir skrá hana undir “annar fjölskyldumeðlimur” í umsókninni þinni og í skýringu þá "barn, 20 ára eða eldra". Lög um almennar íbúðir miða við að aldur barna á heimili miðist við 19 ára og yngri svo ekki er litið til þeirrar skráningar varðandi forgang. Þið gætuð hugsanlega verið leigutakar saman á leigusamningi. Er þá litið til tekna og eigna beggja eins og um sambýlisaðila sé að ræða.
Ég var lengi í stéttarfélagi sem er undir ASÍ/BSRB, en er það ekki lengur, get ég samt sótt um?
Nei, því miður. Eingöngu er úthlutað til núverandi félagsmanna aðildarfélaga ASÍ eða BSRB sem eru á vinnumarkaði og hafa verið félagsmenn að lágmarki 16 mánuði litið til sl. 24 mánuði.
Hvað er í íbúðinni þegar ég flyt inn?
Húsnæðið er í því ástandi sem almennt er talið fullnægjandi. Ofn og eldavélahellur fylgja og einnig er háfur. Önnur tæki þarft þú sjálfur að útvega. Þ.e. þú þarft sjálfur að koma með þinn ísskáp, uppþvottavél, þvottavél og annað sem þú kýst að hafa, þurrkari þarf að vera barkalaus. Í eldhúsinnréttingu er gert ráð fyrir standard, 60 cm., uppþvottavél og standard 60 cm. breiðum ískáp. Fataskápur er í hjónaherbergi og í íbúðinni eru geymsluskápar.
Það hafa orðið breytingar á fjölskyldumynstrinu, get ég breytt skráningunni minni?
Það er alltaf hægt að gera breytingar á skráningunni á biðlista. Hins vegar er ekki hægt að gera breytingar þegar umsóknin í íbúð hefur verið send inn. Ef það er tilfellið getur þú þó gert breytingu á skráningu á biðlista sem gildir þá í næsta skipti sem þú sækir um íbúð.
Ég er búin að fá úthlutun - hvert kem ég til að skrifa undir leigusamning?
Til að skrifa undir leigusamning þarftu að koma á skrifstofu Bjargs, 2. hæð á Kletthálsi 1 í Reykjavík á milli klukkan 09.00 og 16.00. Best er að koma sem fyrst eftir að íbúðarúthlutun hefur verið samþykkt en þó aldrei seinna en þremur mánuðum fyrir afhendingu. Athugið að maki/sambýlisaðili þarf einnig að skrifa undir leigusamninginn. Þá þarf 3ja mánaða trygging að liggja fyrir við undirritun leigusamnings (athugið að staðfestingargjaldið sem greitt var við úthlutun gengur upp í trygginguna og hún lækkar því sem því nemur).
Hvernig segi ég leigusamningnum mínum upp?
Þú segir upp leigusamningi þínum inni á "mínum síðum". Athugaðu að uppsagnarfrestur eru sex mánuðir, talið frá fyrsta degi næsta mánaðar. Komi eitthvað upp á getur leigutaki óskað eftir því að losna fyrr og förum við þá í að kanna þau mál. Leigutaki er þó alltaf ábyrgur fyrir leigu í þessa sex mánuði ef Bjarg nær ekki að úthluta nýjum aðila fyrr.
Hvað gerist ef tekjur mínar hækka og fara yfir mörkin, missi ég þá íbúðina?
Bjarg stendur fyrir húsnæðisöryggi, svo engum er sagt upp leigu þrátt fyrir að tekjur hækki. Hinsvegar tala lögin um að heimilt sé að hækka leigugjaldið hafi tekjur og eignir verið yfir skilgreindum tekju- og eignamörkum síðastliðin þrjú almanaksár og bætist þá álag á leigugjaldið. Miðað er við að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25% til 30% af heildartekjum leigjenda að teknu tilliti til húsnæðisbóta.
Hvað gerist ef breyting verður á fjölskyldunni og ég þarf aðra stærð af íbúð, get ég flutt mig í aðra stærð af íbúð hjá Bjargi?
Já, leigutakar hjá Bjargi sem þurfa af sérstökum ástæðum stærri eða minni íbúð geta sótt um flutning. Það gerir þú í gegnum „mínar síður“. Til að geta óskað eftir flutningi þarf leigutaki þó að hafa búið í húsnæðinu að lágmarki í tvö ár og uppfylla öll almenn skilyrði um úthlutun.
Get ég verið með meira en eina umsókn í gangi í einu?
Já, það er ekkert því til fyrirstöðu að sækja um íbúð á fleiri stöðum en einum ef þú ert skráður á biðlista. Hins vegar fellur umsókn þín niður á öllum listum fáir þú úthlutun og samþykkir hana. Það er ekki innheimtur kostnaður við umsóknir en greiða þarf skráningargjald við biðlistaskráninguna, skráningin gildir í 12 mánuði.
Má ég vera með gæludýr?
Það má ekki vera með gæludýr nema í ákveðnum íbúðum sem Bjarg hefur skilgreint sérstaklega fyrir gæludýrahald. Þú getur s.s. sótt um að fá úthlutaðri íbúð sem heimilar gæludýrahald en hafa þarf í huga við slíka umsókn að þær íbúðir eru hlutfallslega fáar og reikna má með lengri biðtíma. Gæludýr skulu ávalt haldin þannig að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Halda má að hámárki eitt gæludýr í slíkum íbúðum. Þá geta þeir umsækjendur sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir dýrahaldi, t.d. vegna ofnæmis, merkt við í sinni umsókn að þeir kjósi að vera í húsi þar sem gæludýrahald er með öllu bannað.
Þarf ég að vera með leigutryggingu?
Já, skila þarf inn leigutryggingu sem jafngildir 3ja mánaða leigu. Trygging þessi þarf að liggja fyrir við undirritun leigusamningsins, þ.e. eigi síðar en þremur mánuðum áður en þú færð íbúðina afhenta. Staðfestingargjaldið, sem þú greiðir í upphafi til að staðfesta boð um íbúð, gengur upp í tryggingargjaldið og lækkar það sem því nemur. Leigutaki getur einnig valið að kaupa tryggingu í gegnum viðurkenndan aðila og gengur þá staðfestingargjaldið upp í fyrstu leigugreiðslu.
Hvar og hvernig sæki ég um?
Umsókn um íbúð gerist í tveimur skrefum og gerist rafrænt á heimasíðu Bjargs í gegnum "mínar síður". Fyrst skráir umsækjandi sig inn á biðlista hjá Bjargi íbúðafélagi. Skráningum á biðlista er raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla staðfestingargjalds er frágengin. Í hvert sinn sem íbúðir eru lausar til umsóknar sendir Bjarg póst á alla á biðlista með nánari upplýsingum. Ef áhugi er á tiltekinni staðsetningu þarf umsækjandi að senda inn umsókn. Úthlutun hlýtur sá umsækjandi sem uppfyllir öll skilyrði um úthlutun, hefur lægsta númer á biðlista og að teknu tilliti til forgangs, sbr. gr. 4 í úthlutunarreglum.
Ég er námsmaður, má ég sækja um?
Námsmenn, sem jafnframt eru virkir á vinnumarkaði en eiga sjálfstæðan rétt til þess að sækja um íbúðir í húsnæðisfélögum námsmanna eftir þeim reglum sem þar gilda, eiga ekki jafnframt rétt hjá Bjargi meðan á námi stendur.
Ég er í fæðingarolofi, má ég sækja um?
Já, fullgildir félagsmenn sem eru tímabundið frá vinnu, þ.e. í allt að 12 mánuði, vegna fæðingarorlofs eða veikinda halda réttindum sínum. Mikilvægt er að viðhalda stéttarfélagsaðild á þessum tíma.
Hvar sé ég mitt biðlistanúmer?
Þú sérð biðlistanúmerið þitt inn á "mínum síðum" hér á heimasíðunni.
Hverjar mega eignir mínar vera til að geta fengið úthlutun?
Heildareign heimilis (allar eignir - mínus allar skuldir) mega í upphafi leigu ekki vera hærri en 8.999.000 kr. skv. núverandi reglugerð. Átt er við heildareign leigutaka og maka/sambýlisaðila. Eignir hér eru t.d. innistæður á bankareikningum, bílar, hjólhýsi, mótorhjól, fasteignir og hlutabréfaeign, samkvæmt skattskýrslu.
Teljast bætur frá Tryggingastofnun sem tekjur?
Já. Allar skattskyldar tekjur heimilismanna (leigutaka/umsóknaraðila og maka/sambúðaraðila) teljast til tekna. Þar á meðal örorkulífeyrisgreiðslur. Hins vegar eru nokkrar tegundir greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins skattfrjálsar. Slíkar tekjur eru ekki teknar með við útreikninga Bjargs á tekjum.
Hvort á ég að skrá tekjur fyrir eða eftir skatt?
Skrá skal allar tekjur fyrir skatt. Allar skattskyldar tekjur heimilismanna (þá leigutaka/umsóknaraðila og maka/sambúðaraðila) teljast til tekna. Þar á meðal örorkulífeyrisgreiðslur.
Hvar/hvernig skrái ég kærastann minn í umsóknina?
Ef þið eruð ekki þegar skráð í sambúð, þið búið e.t.v. enn á sitt hvoru heimilinu, þá setur þú hann sem "heimilismann" og setur í skýringu, “kærasti.” Litið er á ykkar sameiginlegu tekjur og eignir þegar kemur að úthlutun og hámarks-tekjuviðmið miðuð við hjón og sambúðarfólk.
Hvað er átt við með tekjur?
Miðað er við þessa reiti í skattframtali þínu (og maka/sambúðaraðila þíns): 2.7 Stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars. 2.8 Tekjur erlendis , aðrar en fjármagnstekjur. 3.10 Fjármagnstekjur samtals (að frádregnum fjármagnstekjum barna, reitur 3.4).
Get ég verið með of lágar tekjur?
Lög um Almennar íbúðir og úthlutunarreglur Bjargs tala um að greiðslubyrði leigu skuli að jafnaði ekki vera umfram 25%-30% af heildartekjum leigutaka að teknu tilliti til húsnæðisbóta, barnabóta og meðlags. Greiðslubyrði leigu (húsaleiga mínus húsnæðisbætur) hjá umsækjanda sem er með 400 þúsund kr. tekjur á mánuði, fyrir skatt, ætti því ekki fara yfir 120 þúsund kr. á mánuði (30% af 400.000 er 120 þúsund). Bjarg leigir íbúðir á kostnaðarverði og leiguverð er mismunandi milli svæða. Barnabætur og meðlög reiknast sem tekjur við útreikninginn.
Get ég fengið íbúð með baði
Nei, allar íbúðir Bjargs eru innréttaðar með sturtu og ekki er hægt að koma fyrir baði.
Hver eru tekjumörkin?
Í lögum um Almennar íbúðir eru skilgreind tekju-og eignamörk ásamt viðmiði um greiðslubyrði leigu, í dag eftirfarandi: 8.327.000 kr. ári, fyrir skatta (eða 693.917 kr. á mánuði) fyrir hvern einstakling. 11.659.000 kr. á ári, fyrir skatta (eða 971.583 kr. á mánuði) fyrir hjón og sambúðarfólk. 2.082.000 kr. á ári (eða 173.500 kr. á mánuði) fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu. Heildareign heimilis má ekki vera hærri en 8.999.000 kr. Greiðslubyrði leigu skal að jafnaði ekki vera umfram 25%-30% af heildartekjum leigutaka að teknu tilliti til húsnæðisbóta.
Hvernig geymslur fylgja íbúðinni?
Það eru geymsluskápar innan íbúðar en engar sérgeymslur eru utan íbúðar. Það var gert til að lágmarka fermetrafjölda og þ.a.l. leiguverðið. Þá verður sameiginleg hjólageymsla, þar sem geyma má hjól, barnavagna og snjóþotur.
Verða rafmagnshleðslustöðvar?
Já, öll hús Bjargs verða með rafmagnshleðslustöðvum svo leigutakar geta hlaðið rafmagnsbílana sína.
Ég var atvinnulaus á tímabili, hefur það áhrif á umsókn mína um íbúð?
Miðað er við að hafa verið virkur á vinnumarkaði í 16 mánuð litið til sl. 24 mánaða við úthlutun. Atvinnuleysi sem varir lengur en í 8 mánuði gæti því komið í veg fyrir úthlutun. Undantekningin er gefin umfram þessa 8 mánaða reglu ef um er að ræða fæðingarorlof eða tímabundin veikindi, en fullgildir félagsmenn sem eru tímabundið frá vinnu, í allt að 12 mánuði, vegna fæðingarorlofs eða veikinda halda réttindum sínum.
Hvað gerist ef tekjur mínar lækka?
Bjarg er leigufélag án hagnaðarsjónarmiða og leigir íbúðir á kostnaðarverði. Lækki tekjur umsækjanda hefur það því ekki áhrif á leiguverð til lækkunar þar sem ekki er hægt að fara niður fyrir kostnað íbúðarinnar. Ef hinsvegar, leiguverð hefur hækkað á einhverjum tímapunkti vegna hærri launa, þá getur leigan lækkað aftur ef tekjur lækka.
Húsnæðisbætur
Leigutakar Bjargs eiga almennt rétt á húsnæðisbótum. Umsókn þurfa leigutakar sjálfir að gera í gegnum vefinn husbot.is. Í umsókninni þarf að haka við að húsnæðisbætur séu greiddar beint til leigusala og lækkar leigan ávalt sem þeirri fjárhæð nemur. Bankareikningur sem settur er inn í umsókn er 526-26-00789.
Hvað má ég gera (framkvæma) í íbúðinni?
Leigutaka er óheimilt að framkvæma nokkar breytingar eða endurbætur á hinu leigða húsnæði eða búnaði þess, nema að fengnu samþykki leigusala. Leigutaka er þó heimilt án sérstaks samþykkis að bæta við innréttingar eða mála í öðrum lit. Leigutaki getur valið um að fjarlæga slíkar viðbætur í lok leigutíma og komið húsnæðinu í upphaflegt horf eða nálgast leigusala með hvort þær viðbætur megi standa eftir við leigulok. Samþykki leigusali slíkt verða viðbætur eign leigusala og á leigutaki ekki rétt á sérstakri greiðslu vegna þeirra.