Langtímaleiga

Grein birtist í Blaði stéttafélaganna des. 2016.

Nú blasir loksins við að almenningur geti leigt íbúðarhúsnæði til langs tíma og á viðráðanlegu verði. BSRB og ASÍ hafa bundist samtökum um íbúðafélag að danskri fyrirmynd sem hyggst reisa um 1.200 leiguíbúðir. Byrjað verður að leigja íbúðirnar út eftir tvö ár gangi áætlanir eftir. Búast má við að hægt verði að skrá sig á biðlista eftir íbúðum vel fyrir þann tíma. Björn Traustason er framkvæmdastjóri Almenna íbúðafélagsins sem verkalýðsfélögin hafa stofnað á grunni nýrra laga um almennar íbúðir.

„Markmiðið er vandað, ódýrt og öruggt húsnæði. Það er alveg skýrt,“ segir Björn um tilgang félagsins. „Þetta er „non-profit félag þar sem við erum að starfa eftir skýrum lagaramma. Það er gerð krafa um sjálfbærni í þessu kerfi þannig að þegar félögin fara að greiða niður lánin sín þá skila þau hagnaðinum inn í kerfið aftur. Þannig að hagnaður félagsins verður nýttur til að búa til fleiri íbúðir. Félagið er sjálfseignarstofnun sem verkalýðsfélögin tóku að sér að stofna í kjölfar lagasetningar um almennar íbúðir síðastliðið sumar. Hugmyndin er að fólk sem er í neðri hlutum tekjustigans, lægsta fjórðungnum, eigi kost á framtíðarhúsnæði á leigumarkaði fyrir sanngjarnt verð. Tekjumörk eru skilgreind í lögunum. Efri mörkin eru breytileg og taka meðal annars mið af fjölskyldustærð. Neðri mörkin miðast við að fólk verji ekki meiru en fjórðungi heildartekna sinna, þá eru húsnæðisbætur teknar með í reikninginn, til þess að standa straum af leigunni.“

„Gert er ráð fyrir að þetta kerfi taki við þar sem félagslega kerfið hættir en efri mörkin á félagslega kerfinu liggja nálægt neðri mörkunum í þessu kerfi. Þarna er verið að búa til kerfi þar sem þú átt að geta leigt íbúð, og búið í henni alla ævi. Það er það sem er að gerast í fyrsta sinn með þessu kerfi. Það sem kallað er langtímaleigusamningur í dag er kannski tvö til fjögur ár.“

Björn bætir því við að markmiðið sé að smíða vandaðar og eftirsóknarverðar íbúðir. „Við munum vera með íbúðir á mjög góðum stöðum  Það verður ekki byggt mikið á hverjum stað heldur verða íbúðirnar staðsettar víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Það sem við erum að byrja að vinna með núna eru verkefni í Spöng [í Grafarvogi] og í Úlfarsárdal og verið er að skoða verkefni á svæðinu nálægt miðbænum, til dæmis við Kirkjusand, í Skerjafirði og á Útvarpshússreitnum.“

Almenna íbúðafélagið verður landsfélag. Nú þegar er félagið í samstarfi við Reykjavík og Hafnarfjörð en hugmyndin er að félagið geti starfað um allt land.„En við erum alltaf háð því að við höfum ekki heimild til að niðurgreiða leigu þannig að leiga á hverjum stað þarf að standa undir sér. Á  þeim svæðum sem leiga er lág verður metið hvort það sé hægt að koma með þetta úrræði en vilji er til þess að vinna með öllum sveitafélögum.“

Félagið var stofnað í september en síðan hefur verið unnið að undirbúningi. Það hefur þegar fengið úthlutað lóðum í höfuðborginni og Hafnarfirði en núna er unnið að fjármögnun félagsins. Tæpur þriðjungur fjármagns, um tíu milljarðar króna, koma frá ríki og sveitarfélögum en von er á því að fjármunir í fyrstu verkefnin  verði afgreiddir í þessum mánuði. Félagið verður að finna afganginn af fjármagninu annars staðar og verður það gert með því að fá lán á almennum markaði, hjá lífeyrissjóðum, bönkum eða Íbúðalánasjóði, alls um 20 milljarða króna. „Í framhaldi af því getum við farið að fara af stað með hönnun á viðkomandi lóðum.  Um leið og við erum  búin að fá afgreiddan þennan stofnstyrk þá getum við farið af stað með framkvæmdafasann. Við erum að fara að byggja tólf hundruð íbúðir sem er ígildi heils skólahverfis. Það þýðir að þetta er eitt stærsta byggingarverkefni sem er að fara í gang á landinu.“

– En hvenær getur fólk búist við því að sjá húsin rísa og óska eftir því að fá að flytja inn?

„Eftir að fjármögnun lýkur má ætla að hálfu ári þaðan í frá megi búast við fyrstu skóflustungu. En eftir að við skilum fyrsta húsinu, eftir u.þ.b. tvö ár héðan í frá, þá munum við að meðaltali afhenda eitt fjölbýlishús á mánuði í fjögur ár. Þegar þetta er komið af stað verður mikið umfang í þessu. Þá verður uppbyggingin mjög hröð.“

Engin vafi er á því að þörfin er mjög brýn. Allir sem hafa einhvern tímann verið á leigumarkaði þekkja stutta samninga, tíða flutninga og svo ekki sé minnst á leiguverðið sem hefur verið óhugnanlega hátt mjög víða undanfarin ár. Auk þess þarf að greiða tryggingu eða fyrirframgreiðslu sem stundum slagar hátt upp í innborgun á íbúð.

Í þessu kerfi er gert ráð fyrir biðlistakerfi þegar kemur að því að úthluta íbúðum.

„Við þurfum að komast lengra inn í verkefnið áður en við förum að opna fyrir skráningar. Þetta er svona tveggja ára ferli frá því að við byrjum að teikna og þangað til við skilum húsi. Þegar líður að þeim tímapunkti munum við opna fyrir þessar skráningar. Það verður kynnt mjög vel þegar að því kemur en það verður vel fyrir þann tíma sem við afhendum húsið.“

Björn segir að húsnæðið sé hugsað fyrir félagsmenn í BSRB og ASÍ.

Hvernig verða þessar íbúðir? Björn segir að þær verði af hæfilegri stærð og haganlega skipulagðar. Gert sé ráð fyrir að þriggja herbergja íbúð sé um 70 fermetrar að raunstærð. Fjögurra herbergja íbúð um 80 fermetrar og fimm herbergja íbúðir nálgist hundrað fermetra. „Þannig að við erum ekki að tala um mjög marga fermetra en við ætlum að hafa þetta mjög vel skipulagða fermetra og nýta úrræði byggingareglugerðar til að nýta þá vel.   Við ætlum að hanna íbúðirnar skalanalegar þannig að til dæmis þegar börnin fara að heiman er hægt að breyta herbergi í stofu og þú getur að sjálfsögðu flutt þig til innan kerfisins. Svo er annað í þessu kerfi, þótt þú farir yfir tekjumörkin einhvern tímann á lífsleiðinni, þá missirðu ekki húsnæðið. En þá mun verðið fyrir leiguna breytast og nálgast markaðsverð.“

Spurður um hvað fólk geti gert ráð fyrir að borga í leigu fyrir svona íbúðir segir Björn að það geti farið eftir bæði fjármögnunar- og byggingakostnaði en hugmyndin sé að leigan geti verið eitthvað á borð við 2.000 krónur á fermetrann. Þannig verði leiguverð fyrir 70 fermetra íbúð á góðum stað ef til vill um 160 þúsund krónur á mánuði. En sé til dæmis bílakjallari í húsi þá geti það hækkað verðið um 20 prósent.